Hítarvatn 6. júlí 2015
Kynnin endunýjuð
Dagsáætlunin var að ganga inn með Vatnshlíðinni inn í norðurenda vatnsins og veiða þar yfir daginn. Þegar kvöldaði ætluðum við að veiða á völdum stöðum undir Vatnshlíðinni á leiðinni til baka. Gangan er um það bil ellefu kílómetra löng og tekur tvo tíma. Þetta er til þess að gera létt ganga og lítið á fótinn. Þegar við komum að stíflunni voru eldri maður og annar á miðjum aldri að leggja af stað inn með hlíðinni. Þeir voru greinilega í sömu hugleiðingum og við. Sá gamli var orðinn vel við aldur og ég dáist að því að maður á hans aldri hafi líkamlega burði í svona hark. Ég vona svo sannarlega að ég beri gæfu til að geta leikið þetta eftir honum eftir tuttugu ár.
Við vorum fljótir að ganga þá félaga upp. Í ljósi aldursmunar hefði annað auðvitað gert okkur skömm til. Við tökum smá spjall og sá gamli segir: ,,Þar sem þið eruð kunnugir á þessum slóðum ættuð þið að geta svarað þessu. Hér fremst er Foxufellið og fyrir ofan það er Grafheiðin en hvað heitir fjallið þarna“ og bendir með stafnum sínum á fjallgarð norðan við Grafheiðina. Þar sem ég hef aðeins spáð í örnefnin í kringum vatnið hefði ég átt að geta svarað þessu en mér til vansa þá gat ég ómögulega munað heitið á fjallinu. Eftir að hafa glöggvað mig á þessu þegar heim var komið held ég að ég fari rétt með þegar ég segi að næst vatninu norðan við Foxufellið séu Lambahnúkar en fjöllin fjær sem sá gamli benti á heiti Smjörhnúkar. Dalurinn austan við Lambahnúkana heitir Burstadalur. Sá gamli sagðist hafa lesið gamalt ljóð um þetta svæði þar sem Foxufellið var kallað Kakalafjall. Hann skýrði heitið kakali og sagði það hafa átt að líkja eftir gaggi tófunnar.