Vötnin á vatnaleið og Hraunsfjörður

Skemmtileg veiðivötn á Snæfellsnesi

Vötnin sem ég er að vísa til eru Baulárvallarvatn, Hraunsfjarðarvatn, Selvallavatn og Hraunsfjörður. Eftir lagningu vegarins yfir Vatnaleið varð Baulárvallarvatn og suðvesturhluti Hraunsfjarðarvatns vel aðgengileg til veiða. Eldfjallið Vatnafell aðskilur Baulárvallarvatn og Hraunsfjarðarvatn og Horn aðskilur Hraunsfjarðarvatn og Selvallavatn. Suðvestan við Hraunsfjarðar- og Baulárvallarvatn eru Tröllatindar og Hafrafell er austan við vötnin. Í jarðsögulegu ljósi eru vötnin til þess að gera ung. Þau mynduðust í eldgosum fyrir um það bil 120 þúsund árum. Bæði Hraunsfjarðarvatn og Baulárvallarvatn eru ægidjúp en eitthvað er mesta dýpt þeirra á reiki. Það helgast af stíflugleði mannanna. Sennilega er Baulárvallarvatn um kringum 47 metra djúpt og Hraunsfjarðarvatn hvorki meira nér minna en 87 metra djúpt.

Í Baulárvallarvatn renna fjölmargir lækir sem væntanlega eru hrygningastöðvar urriðans sem í vatninu er. Árnar sem renna í vatnið frá Vatnfelli réttsælis kringum vatnið heita Rauðsteinalækur, Draugagilsá, Baulá, Moldagilsá og Vatnalækur. Til suðurs rennur Straumfjarðará úr vatninu væntanlega hefur útfallið verið stærsta hryggningastöð urriðans áður en það var stíflað en eftir stíflugerðina eru aðstæður til hryggningar urriðanum lítt hagstæðar.

Vatnaleid introÉg man eftir að hafa reynt í tvígang að veiða í Baulárvallarvatni. Í fyrra sinnið árið 2005 röltu ég og veiðifélagi minn inn með Vatnafellinu að Vatnaá og hófum veiðar þar. Þar fengum við nokkra smátitti. Á bakaleiðinni veiddum við í fjörunni niður af Vatnafellinu. Köstuðum á móti stífri sunnanáttinni og þarna fengum við einhverja urriða sem voru heldur stærri. Þeir náðu samt ekki þeirri stærð sem sögð er vera meðalþyngd fiska í vatninu en urriðinn í Baulárvallarvatni ku vera af stærri gerðinni af vatnafisk að vera.
Vatnaleid 1Á myndinni til hægri er veiðimaðurinn við Vatnaá. Á myndinni til vinstri situr eldri dóttirin á bakkanum undir Vatnafelli.
Seinni ferðin var farin sumarið 2009 en þá fór fjölskyldan saman. Sú ferð bar engan árangur enda vorum við ekki á besta veiðitíma. Í ördeiðunni velti maður fyrir sér hvurs slags búskapur hafi verið á bænum Baulárvöllum sem þarna var og fór í eyði árið 1868. Sagan segir að í vatninu hafi búið skrímsli sem tók niður hluta bæjarins nótt eina árið 1838. Trúi hver sem vill þessari sögu en skemmtileg er hún.

Einu sinni reyndum við hjónin fyrir okkur í Hraunsfjarðarvatni. Ókum slóða meðfram Vatnafellinu yfir að suðvesturhluta vatnsins. Þarna er maður að veiða á grængolandi dýpi. Skemmst er frá því að segja að árangur var engin. Mér er sagt að í Hraunsfjarðarvatni sé vænn fiskur og hef ég áhuga á að sannreyna hvort það sé rétt. Aðgengi að vatninu er hins vegar slæmt nema þarna að suðvestanverðu. Þar þykir mér hins vegar ekkert sérlega vænlegt að veiða því mér hefur ekki gengið vel að veiða í svona dýpi. Einhvern daginn mun ég gefa mér tíma til að ganga að vatninu vestanverðu.

Í Selvallavatni hef ég aldrei rennt færi en það kemur að því. Við hjónin fórum nokkrum sinnum inn í Hraunsfjörð til að veiða. Ég get ekki sagt að við höfum gert einhver uppgrip þar en náðum samt öðru hvoru að landa fiski. Oftast nær veiddum við í Berserkjahrauninu. Ókum þá inn að litlum læk austanvert og gengum frá honum í um það bil fimmtán mínútur inn að vatni. Í fyrstu ferðinni náðum við nokkrum bleikjum og kannski hefðum við náð fleirum ef eldri dóttirin hefði ekki stigið á flugustöngina. Ekki var við hana að sakast því maður verður að gæta að því hvar maður leggur hana frá sér. Í annað sinn tók lax fluguna hjá mér. Stökk myndarlega upp úr vatninu rétt fyrir framan mig og hélt síðan sína leið.
Vatnaleid 3Falleg sjóbleikja sem eiginkonan náði fyrir miðjum firði. Á myndinni hægra megin er Landroverinn við ánna í Berserkjahrauni.
Við reyndum einnig að veiða á vesturbakkanum en það gekk aldrei vel. Reyndar náði eiginkonan í eitt skiptið ágætis silung fyrir miðju vatni. Mér skilst að inni í botni bunkist bleikjan upp þegar fer að líða á júlí. Einu sinni reyndum við að veiða þar en það var án árangurs. Í síðustu ferðinni gengum við út á grjótgarðinn og reyndum að setja í lax sem þar stökk í gríð og erg. Það var sýnd veiði en ekki gefin.

Heimildaskrá

Friðriksson, K. (19. ágúst 2013). Baulárvallarvatn 16. - 18. ágúst. Sótt 23. maí 2015 af Flugur og skröksögur. http://fos.is/2013/08/19/baularvallarvatn-16-18-agust/

Sigurðsson, H. (18. Mars 2010). Þrjú eldgos mynda þrjú stöðuvötn. Sótt 21. Maí 2015 af Haraldur Sigurðsson. http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1032045/